• Email
 • Prenta

Starfsfólk í landbúnaði

Starfsfólk í landbúnaði og matvælavinnslu er beðið að gæta ítrustu smitvarna

Fólk sem kemur erlendis frá til starfa í landbúnaði eða matvælavinnslu á Íslandi er mikilvægur hlekkur í sjúkdómavörnum. Því er treyst til að fara að settum reglum og gæta ítrustu varkárni við komuna til landsins.

Starfsfólkinu ber að varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annað sem notað hefur verið í umhverfi dýra. Ef slíkur skófatnaður er tekinn með til landsins þarf að þrífa hann vel áður og sótthreinsa með VirkonS® eða öðrum sambærilegum efnum, sem má fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum t.d. gin- og klaufaveikiveiru. 

Fatnaður sem notaður hefur verið í nálægð við dýr, skal þveginn í þvottavél eða þurrhreinsaður í efnalaug áður en komið er með hann til landsins.

Komi starfsfólk beint frá búi erlendis, eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að það umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.

Komi upp minnsti grunur um að starfsfólk sé haldið smitsjúkdómi er sjálfsagt að það fari í læknisskoðun.

Reiðfatnaður og reiðtygi

Hestar á Íslandi eru ekki bólusettir og því viðkvæmir fyrir utanaðkomandi smitefnum.

 • Óheimilt er að flytja til landsins:
  • Notuð reiðtygi, s.s. hnakka, beisli, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv.
  • Notaða reiðhanska
 • Þvottur og sótthreinsun:
  • Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins
  • Notaðan reiðfatnað sem ekki er hægt að þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug, skal hreinsa og sótthreinsa með eftirfarandi hætti:
    • Þvo mjög vel með sápuvatni
    • Þurrka             
    • Úða með 1% VirkonS® (10g í hvern lítra af vatni)
    • Geyma í a.m.k. 5 daga áður en búnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi

Veiðibúnaður

Illkynja sjúkdómsvaldar á borð við veirur ýmis konar og sníkjudýrið Gyrodactylus salaris hafa aldrei greinst í ferskvatnsfiskum á Íslandi.

 • Óheimilt er að flytja til landsins:
  • Notaðan veiðibúnað, s.s. stangir, veiðihjól, öngla/spóna/flugur, vöðlur og háfa, nema að hann sé sótthreinsaður með viðurkenndum hætti
 • Sótthreinsun:
  • Sótthreinsun skal framkvæmd af dýralækni í útflutningslandi og vottorð þar um skal fylgja búnaðinum til landsins. Að öðrum kosti ber að tilkynna tollayfirvöldum um veiðibúnaðinn við komuna til landsins sem sér um að koma honum til sótthreinsunar á kostnað eiganda.

Matvæli

Sjúkdómar geta borist í dýr og menn með matvælum og því ástæða til að gæta ítrustu varkárni.

 • Óheimilt er að flytja til landsins :
  • Hrátt kjöt þ.m.t. spægipylsu og hráskinku
  • Ósoðin egg
  • Ógerilsneiddar mjólkurafurðir
 • Heimilt er að flytja til landsins:
  • Soðin eða unnin matvæli, enda komi skýrt fram á umbúðum að þau hafi verið meðhöndluð á viðeigandi hátt. Hver einstaklingur má koma með til landsins allt að 3 kg af kjöti.