• Email
  • Prenta

Fiskeldi

Heilbrigðiseftirlit með eldi lagardýra er fastsett með lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og eftirlit með þeim, lögum nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum og lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Nánar er svo kveðið á um eftirlitið í reglugerð nr. 403/1986 um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum, reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar og reglugerð nr. 1254/2008 um heilbrigðiskröfur að því er varðar lagareldisdýr og afurðir þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum. Þá eru í gildi sértækar reglugerðir sem kveða nánar á um framkvæmd og fyrirkomulag á afmörkuðum sviðum, s.s. reglugerð nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum, reglugerð nr. 527/2003 um sýnatökuáætlanir og greiningaraðferðir við greiningu og staðfestingu á fisksjúdómunum brisdrepi, iðradrepi og veirublæði og reglugerð nr. 1011/2003 um búnað og innra eftirlit í fiskeldisstöðvum. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem ofangreind lög og reglugerðir kveða á um. Matvælastofnun skal vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og hafa undir sinni stjórn dýralækni, sem starfar samkvæmt erindisbréfi og skal í samvinnu við héraðsdýralækna sinna vörnum, sjúkdómsgreiningu og reglubundnu eftirliti varðandi sjúkdóma í fiskum, skeldýrum og krabbadýrum. 

Ítarefni