• Email
  • Prenta

Varasamur matur fyrir gæludýr

Oftar en ekki er það misskilin góðmennska að deila jólamatnum sínum með hundinum sínum. Margir hundar eru viðkvæmir fyrir breytingum í matarræði og jólin enda í niðurgangi og uppköstum sem hvorki er eiganda né dýri til ánægju. Þó eru nokkrir hlutir sem sérlega ber að varast:

Súkkulaði

Súkkulaði inniheldur efni kallað theobromíð sem er eitrað hundum og kettir eru enn viðkvæmari. Mest er af theobrómíð í dökku súkkulaði og það því mest hættulegt. Theobrómíð hefur áhrif á hjarta, taugakerfi og nýru og 100-150 mg/kg líkamsþyngd af theobromíð getur valdið alvarlegri eitrun, jafnvel dauða. Áhrifin byrja oft 4-24 klst eftir inntöku og geta verið uppköst, niðurgangur, óróleiki, ofvirkni, skjálfti, óstöðugleiki og krampi. Ekkert mótefni er til og því mikilvægt að komast sem fyrst til dýralæknis eftir inntöku (helst innan 3 klst) svo hægt sé að fá hundinn til að kasta upp áður en fullt uppsog verður. Meðhöndlun fer eftir innteknu magni, tíma og einkennum. 

Ef hundurinn þinn át súkkulaði:

Viðmið til að reikna út magn (u.þ.b.) af theobrómíð í 25 grömmum af súkkulaði:

  • Hvítt súkkulaði inniheldur hverfandi magn
  • Mjólkursúkkulaði 30-64 mg 
  • Hálfsætt súkkulaði og dökkt súkkulaði 150-160 mg
  • Suðusúkkulaði 390-450 mg
  • Kakóduft 800 mg

Ef um 30 kg hund er að ræða gæti verið um lífshættulega eitrun ef hann étur yfir 1 kg af mjólkursúkkulaði, ½ kg af dökku súkkulaði og 170 g af suðusúkkulaði. Eituráhrif myndu koma fram við lægri skamt td líklegt að uppköst og niðurgangur sæist við inntöku af 200 g af mjólkursúkkulaði, möguleg áhrif á hjartað við 500 g og trúlega skjálftar og krampar við 750 g. 

Ef inntaka er meiri en 20 mg/kg er ráðlegt að meðhöndla með tæmingu á maga og gefa lyfjakol. Oft getur verið erfitt að vita nákvæmlega hvaða magn hundurinn hefur étið og því betra að hafa varann á og leita strax til dýralæknis.

Laukur, hvítlaukur og graslaukur

Kettir eru enn viðkvæmari en hundar fyrir lauki, en laukur getur líka valdið hundum eitrun ef neytt er í einhverju magni. Hundar eða kettir sem fá matarleifar, pizzu, barnamat sem inniheldur lauk geta fengið eitrun og gildir það jafnt hvort sem laukurinn er þurrkaður, soðinn, bakaður eða hrár. Inntaka á yfir 0,5% af líkamsþyngd af lauk hjá hundi og 5 g/kg hjá köttum veldur eitrun. Einkenni geta komið fram 12 klst – 5 dögum eftir inntöku. Eftir því hversu tímanlega dýrið kemur til meðhöndlunar getur meðferð verið að fá dýrið til að kasta upp og gefa lyfjakol eða bara stuðningsmeðferð ef inntaka átti sér stað fyrir löngu. Eitrun getur valdið ertingu í meltingu og en getur einnig valdið niðurbroti á rauðum blóðkornum og blóðskortur getur því komið fram löngu eftir inntöku.

Rúsínur og vínber

Ekki er alveg vitað hvaða efni veldur eitrun en inntaka á vínberjum og rúsínum getur valdið alvarlegum nyrnaskaða bæði hjá hundum og köttum. Sérlega smáhundar eru í hættu þar sem fáar rúsínur geta valdið eitrun. Sýnt hefur verið að 2,8 g af rúsínum/kg dýr hefur gefið nýrnaskaða. Önnur einkenni eru uppköst, niðurgangur, kviðverkir eftir nokkrar klukkustundir og getur þróast í nýrnaskaða eftir sólarhring. Best er að framkalla uppköst sem fyrst eftir inntöku og allt að 6 klst, en inngjöf á lyfjakolum getur einnig minnkað uppsog. Leitið strax til dýralæknis ef grunur leikur á að dýr hafi komist í rúsínur. 

Avocado

Allir hlutar Avocado, svo sem fræ, ávaxtakjöt og hýði innihalda Persin sem getur verið eitrað fyrir dýr. Hundar og kettir geta fengið uppköst og niðurgang en fuglar og nagdýr eru enn viðkvæmari og öndunar og hjartaerfiðleikar geta valdið dauða.

Bein

Þó flestum finnist það ætti að tilheyra venjulegu hundalífi að naga bein þá valda bein oft mun meiri vandræðum en gleði. Bæði geta þau staðið í þeim eða stíflað meltingarveg en kanski sérlega varasöm eru bein sem verða mjög oddhvöss eins og lamba og fuglabein. Ef hundirinn þinn hefur náð í kalkúnabeinin úr ruslinu þá getur verið gott ráð að gefa honum smá hundamat í dós, kjöthakk eða annað vel íblönduðum með niðursoðnum spergil (aspars), því þræðirnir í spergil pakkast oft vel í kringum oddhvassa hluti og getur skilað hlutnum út án þess að valda skaða. 

Macadamia (td hesli) hnetur

Heslihnetur geta valdið á innan við 12 tímum eftir inntöku, veikleika, skjálfta, uppköstum, og hækkuðum líkamshita. Einkennin geta varað í 12-48 klst. 

Gerdeig

Gerdeig getur valdið gasframleiðslu í maga hundsins og valdið því að maginn þennst út og jafnvel snýst. Slíkt ástand getur orðið bæði mjög sársaukafullt og hættulegt. Ef magi hundsins byrjar að þenjast út og/eða hundurinn að kastar upp án þess að nokkuð annað en slím komi upp ber tafarlaust að hafa samband við dýralækni.

Xylitol

Gervisætuefnið xylitol sem bæði finnst í tyggjó og ýmsum sykurlausum vörum geta valdið bráðri hættu í dýrum. Líkami dýranna skynjar Xylitolið eins og um sykurinntöku væri að ræða og veldur losun á insúlíni og í framhaldi falli á blóðsykri og jafnvel insulínsjokki (hypoglycemia). Einkenni geta verið slappleiki, óstöðugleiki, uppköst og krampar.  Inntaka Xylitols hefur líka verið tengd lifrarskaða og storknun í blóði. Jafnvel minnsta magn getur verið hættulegt og leita ætti til dýralæknis umsvifalaust ef grunur leikur á inntöku á xylitol.