• Email
 • Prenta

Útivist nautgripa

Lagaheimildir

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra ber umráðamanni dýra að tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, m.a. hvað varðar öryggi þeirra og heilbrigði, og tekur tillit til bæði sérstakra þarfa dýrsins og séreinkenna tegundarinnar. Umhverfi dýra skal vera þannig, eftir því sem við á, að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt.

Þá segir í 17. gr. reglugerðar nr. 1065/2014 um velferð nautgripa að allir nautgripir, að undanskyldum graðnautum, skulu komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október ár hvert. Aðgangur að útigerði uppfyllir ekki kröfu um útivist á grónu landi.  

Eðlilegt frelsi til hreyfingar

Nautgripum er í grunninn eðlilegt að lifa úti þar sem frelsi þeirra til hreyfingar er ótakmarkað.

Við bestu veðurfræðilegar aðstæður þar sem veðrátta er þannig að gróður er sígrænn og hiti verður aldrei mjög mikill liði nautgripum best úti allt árið. Þær aðstæður eru ekki hér á landi nema stuttan tíma á sumrin. Þess vegna er útivistartími mjólkurkúa takmarkaður af veðráttu. Í ljósi þess þarf að nýta sumartímann vel til að tryggja nautgripum eðlilegt frelsi til hreyfingar. 

Ef kýrnar fá að velja sjálfar vilja þær vera úti, nema ef veður eða önnur óþægindi hamli. Kýr á útbeit geta gengið 4-8 km á dag, í lausagöngu ganga þær 400-800 m.  Þær geta því fengið allt að tífalt meiri hreyfingu en kýrnar sem eru lokaðar inni í lausagöngufjósi. Samkvæmt 17. gr. reglugerðar 1065/2014 er lámarks útvistartími 8 vikur og ræðst sá tími m.a. af viðurkenndri reynslu og þekkingu með hliðsjón af íslensku veðurfari.

Um leið og kýr komast út fer hagur þeirra batnandi. Nuddsár fara að gróa og vöðvarnir liðkast. Hormónastarfsemi fer af stað hjá kúm sem borið hafa síðla vetrar.  Það fer eftir aðstæðum hve langan tíma kýrnar þurfa til að jafna sig að fullu eftir inniveruna, en ef legu- eða nuddsár er ekki að fullu gróið þegar kýrin er bundin inn aftur ýfist það upp á augabragði.  Það er því eðlilegt að kúm sé ætluð 8 vikna útivist en hana ætti að miða við beit þegar það á við og rúman tíma á árinu, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október hér á landi þó að það geti verið aðstæður þar sem kýrnar fá að fara eitthvað út allt árið. Þar sem kýr hafa tækifæri til að ganga út og inn velja þær útivist í frosti og þurrviðri, en draga sig í skjól í slagveðri.

Eðli kúa sem eru úti kemur best fram þegar líður að burði. Þá draga þær sig í hlé, gjarnan í hátt gras og í skjól og laga sér bæli. Þær vilja vera alveg í friði á meðan á burðinum stendur og fyrst eftir að kálfurinn fæðist. Það hefur verið bent á að ein ástæða þess hvað margir kálfar drepast í burði geti verið sú að burðarferlið truflist þegar farið er að flytja kúna til í fjósinu eftir að burðurinn er farinn af stað.

Aukið heilbrigði sem af útivist hlýst og rök að baki reglum um frelsi til hreyfingar og útivistar

 • Aukin hreyfing eykur blóðflæði og þar með súrefnisupptöku.
 • Virkni sogæðakerfis eykst og þar með mótstaða gegn sýkingum. 
 • Minni líkur eru á súrdoða þegar kýr eru úti. 
 • Kýr á útbeit fá minni júgurbólgu og lifa lengur.
 • Hreyfing er holl fyrir liði og eykur styrk liðbrjósks.
 • Kýr á útbeit eru með heilbrigðari lappir og klaufir. Mun færri eru haltar, með bólgin framhné eða hækla.
 • Spenastigum fækkar. 
 • Burður gengur betur hjá kúm sem eru á útbeit. 
 • Kýr sem hreyfa sig mikið eiga mun auðveldara með að leggjast og standa upp => þær leggjast því oftar og liggja meira. 
 • Kýr vilja frekar liggja úti á grasi en á góðum básum. Kýr eiga að liggja a.m.k. 10 tíma á sólarhring, styttri legutími kemur niður á líkamlegu og andlegu heilbrigði. Kýr á útbeit liggja lengur og jórtra meira liggjandi.
 • Mjög sjaldgæft er að sjá atferlisfrávik hjá kúm á útbeit. Hvert dýr hefur meira rými og árásargirni minnkar marktækt. Átök um aðgengi að fóðri eru hverfandi.

Heimildir

 • Svensk Mjölk; Bete, praktiska lösningar og management. Författare: Jeanette Belin.
 • Washburn, S. P., White, S. L., Green, J. T. J., and Benson, G. A. (2002). Reproduction, mastitis, and body condition of seasonally calved Holstein and Jersey cows in confinement of pasture systems. Journal of Dairy Science, 85, 105–111.
 • Haskell, MJ, Rennie, LJ, Bowell, VA. Bell, M. J och Lawrence, AB. Housing System, Milk Production, and Zero-Grazing Effects on Lameness and Leg Injury in Dairy Cows. Journal of Dairy Science 2006, 89.
 • Hernandez-Mendo, O., von Keyserlingk, M. A. G., Veira, D. M., and Weary, D. M. (2007). Effects of pasture on lameness in dairy cows. Journal of Dairy Science, 90, 1209–1214.
 • DJF rapport Husdyrbrug nr 74  November 2006 Lene Munksgaard og Eva Søndergaard (red.) 

Ítarefni