• Email
  • Prenta

Tilraunadýr

Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varðar velferð dýra. Matvælastofnun fer með framkvæmd stjórnsýslunnar og hefur eftirlit með því að ákvæðum laga og reglugerða sé fylgt. Matvælastofnun er skylt að leita álits fagráðs um velferð dýra um stefnumótandi ákvarðanir og umsóknir um leyfi til dýratilrauna.

Fagráð um velferð dýra skal skipað fimm aðilum og jafn mörgum til vara. Yfirdýralæknir skal vera formaður fagráðsins, en aðrir fulltrúar skulu skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fagráðinu ber að kalla eftir sérfræðiáliti þegar fjallað er um fræðileg álitamál og ráðið skortir sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Hlutverk fagráðsins er eftirfarandi: 

  • að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra,
  • að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna,
  • að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra,
  • að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna.

Fagráðið skal hafa aðsetur hjá Matvælastofnun sem leggur því til vinnuaðstöðu og starfsmann með sérfræðiþekkingu á starfssviði ráðsins. Fagráðið skal halda gerðabók um störf sín og gefa út ársskýrslu fyrir 1. mars ár hvert. Um málsmeðferð hjá fagráðinu skal farið að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Fagráðið hittist reglulega og tekur til umfjöllunar umsóknir um leyfi til dýratilrauna og leyfi fyrir aðstöðu fyrir tilraunadýr og tilraunastöð. Nefndin starfar samkvæmt lögum nr. 55/2013  um velferð dýra og reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.

Umsóknir um leyfi til dýratilrauna ber að senda til Matvælastofnunar. Þær eru aðgengilegar á þjónustugátt MAST. Umsóknir þurfa að berast fyrir þann 30. hvers mánaðar til að tryggja afgreiðslu fyrir lok næsta mánaðar. Athugið engin meðhöndlun er á umsóknum í desember, júní og júlí. Til að fá meðhöndlun umsókna í nóvember þarf umsóknin að hafa borist fyrir 30. október. Umsóknir sem berast á tímabilinu 31. október til 30. desember verða meðhöndlaðar í lok janúar næsta árs. Til að fá meðhöndlun fyrir sumarfrí (í lok maí) þarf umsókn að hafa borist fyrir 30. apríl. Umsóknir sem berast á tímabilinu 30. apríl til 30. júlí verða meðhöndlaðar í lok ágúst.

Samkvæmt 33. gr. laga 55/2013 um velferð dýra hefur Matvælastofnun heimild til að innheimta leyfisgjald fyrir þau leyfi sem stofnunin veitir. Fyrir hverja tilraun sem Matvælastofnun veitir leyfi fyrir, skal leyfishafi greiða fjárupphæð í samræmi við gjaldskrá Matvælastofnunarinnar. 

  • Umsókn – Leyfi til dýratilrauna: 70.125 kr
  • Breyting á umsókn v/leyfi til dýrtilrauna: 23.375 kr.
  • Flýtimeðferð á umsókn v/leyfi til dýratilrauna: 101.800 kr.

Ítarefni