• Email
  • Prenta

Tilkynningar um illa meðferð

Hver sá sem verður var við illa meðferð á dýrum ber að tilkynna það í gegnum Ábendingakerfi Matvælastofnunar, til héraðdýralækna hennar eða til lögreglu. Sömuleiðis ber hverjum þeim sem verður var við að umráðamann búfjár skorti hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt, hann vanfóðri það eða beiti það harðýðgi, að tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni Matvælastofnunar.

Héraðsdýralæknum og fulltrúum Matvælastofnunar er skylt að kanna hvort ábendingar um illa meðferð á dýrum eigi við rök að styðjast. Þeir kalla lögreglu til aðstoðar ef með þarf. Sé um minni háttar brot á lögum að ræða, er eigendum eða umsjónarmönnum gefinn frestur til að bæta úr innan tiltekins tíma. Aftur á móti er heimilt að taka dýr fyrirvaralaust úr vörslu eigenda eða umsjónarmanna sé um alvarlegt brot að ræða. Þegar dýr eru tekin úr vörslu eigenda eða umsjónarmanna er sveitarstjórn skylt að útvega geymslustað, fóður og umhirðu fyrir dýrin á kostnað eigenda eða umsjónarmanna.

Hafi búfé orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar er héraðsdýralækni heimilt að aflífa það, að höfðu samráði við yfirdýralækni. Lögreglustjóri ber ábyrgð á slíkum aðgerðum.