• Email
  • Prenta

Flutningur nautgripa

Flutningar á nautgripum innan varnarhólfa eru aðeins skráningarskyldir í hjarðbók t.d. í Huppa.is (ekki þarf að sækja um) en flutningar á milli hólfa (yfir varnarlínur) eru háðir leyfi Matvælastofnunar. Það er kaupandinn sem sækir um flutningsleyfið á Þjónustugátt Matvælastofnunar og það er héraðsdýralæknir í umdæmi kaupandans sem afgreiðir leyfin.

Umsóknir

Þegar umsókn um flutning nautgripa berst til Matvælastofnunar er gert áhættumat til þess að ákveða hvort samþykkja eigi umsóknina eða hafna henni. Garnaveiki er fyrst og fremst sá sjúkdómur sem óttast er að geti fylgt í kjölfar nautgripaflutninga. Þess vegna er allur flutningur á nautgripum frá búum þar sem garnaveiki hefur greinst undanfarin 10 ár bannaður. Listi yfir garnaveikibæi er uppfærður reglulega.

Viðauki við reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni segir til um hvar er skylt að bólusetja lömb og kið:

  1. Á Suðvesturlandi og Vesturlandi frá Markarfljóti að Hvammsfjarðarlínu úr Hvammsfirði í Hrútafjörð. Ekki er þó skylt að bólusetja á fjárskiptabæjum í Biskupstungum eða í Vestmannaeyjum.
  2. Á Norðurlandi frá Húnaflóa að Skjálfandafljóti og einnig í Skútustaðahreppi. Ekki er þó skylt að bólusetja í Miðfjarðarhólfi eða í Grímsey.
  3. Á Austurlandi, frá Smjörfjallalínu að Lagarfljótslínu (Lagarfljóti) og Jökulsá í Fljótsdal að austan, þ.m.t. Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Hróarstunga og Fljótsdalur að norðan­verðu. Í Fjarðabyggð sunnan varnarlínu í botni Reyðarfjarðar og í Breiðdalshreppi austan Breiðdalsár.
  4. Á Suðausturlandi frá botni Berufjarðar að Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Bólusetning gegn garnaveiki er ekki trygging fyrir því að kindur geti ekki veikst svo sýkingin getur dulist í umhverfinu. Þess vegna eru helstu hömlurnar á flutningi nautgripa milli varnahólfa, flutningur af svæði þar sem bólusett er við garnaveiki yfir á svæði þar sem ekki er bólusett. Það er vegna þess að ef garnaveikur gripur kæmi inn á svæði þar sem ekki er bólusett, gæti hann verið búinn að dreifa smiti frá sér í marga gripi, því sjúkdómurinn er lengi að búa um sig og smitefnið getur verið búið að dreifast með saur í langan tíma. Það gefur því auga leið að tjónið getur orðið umtalsvert og krafa yrði gerð um skyldubólusetningu á svæðinu.

Hins vegar er líklegt að leyfi fengist til þess að flytja nautgripi:

  • milli svæða þar sem bólusett er í báðum hólfum
  • milli svæða þar sem bólusett er í hvorugu hólfi
  • frá svæði þar sem ekki er bólusett yfir á svæði þar sem er bólusett

Á þessu er þó sá fyrirvari að þó að bólusett sé í Snæfellsneshólfi þá er það líflambasöluhólf og það mundi glata þeirri stöðu ef þar kæmi upp garnaveiki. Því má bara leyfa flutning á nautgripum í hólfið frá svæðum sem eru laus við garnaveiki.

Rannsóknir og áhættumat

Hérlendis hefur aldrei fundist hinn alvarlegi sjúkdómur kúagarnaveiki heldur er hér um að ræða sauðfjárgarnaveiki sem þó getur smitað nautgripi og er afar erfitt að rækta á rannsóknarstofu. Sýktir nautgripir mynda ekki mótefni stöðugt, það gerist í kúrfum. Helst mynda þau mótefni í byrjun sýkingar, svo koma toppar og þess á milli greinist ekkert.

Flutningur hefur verið leyfður af svæði þar sem bólusett er inn á svæði þar sem ekki er bólusett. Þá hefur verið krafist að tekin séu blóðsýni úr öllum nautgripum tveggja ára og eldri á búinu sem flytja á frá og skimað eftir mótefnum gegn garnaveiki. Einnig er horft til þess hvort sauðfé sé á bænum eða samgangur við sauðfé frá nágrannabæjum. Gallinn við blóðprófin er að þau geta gefið í skyn að gripurinn sé sýktur af garnaveiki þó að svo sé ekki (fölsk jákvæð niðurstaða, gömul sýking) og að gripurinn sé ekki sýktur þó að hann hafi tekið smit (fölsk neikvæð niðurstaða, nýsmitaður). Þess vegna dugar ekki að einskorða sýnatökuna við gripina sem á að flytja eða við fáa gripi. Til að fá sem marktækustu niðurstöðu þarf að taka sýni úr stórum hópi dýra, t.d. 200 dýr. Þetta þýðir samt að Matvælastofnun getur ekki ábyrgst að smit geti ekki átt sér stað með flutningum, þrátt fyrir sýnatökur. Ábyrgðin er alltaf á höndum þeirra sem sækjast eftir því að flytja gripina.

Það er til í dæminu að blóðsýna sé ekki krafist, ef langt er síðan garnaveiki hefur greinst á svæðinu og samgangur við sauðfé er mjög takmarkaður eða engin.

Héraðsdýralæknir sem afgreiðir umsókn um flutning á nautgripum tekur einnig tillit til hvort aðrir sjúkdómar gætu verið á ferli eins og t.d. veiruskita sem gæti orðið til þess að flutningi sé hafnað eða honum seinkað.

Einnig tekur héraðsdýralæknir afstöðu til þess hvort hafna þurfi umsókn um flutning vegna áhættu við riðusmit, t.d. ef óskað er eftir því að flytja nautgripi frá búi sem er á miklu riðusvæði, yfir á bú sem er með sauðfé og er staðsett á hreinu svæði.

Algjört skilyrði til þess að leyfi til flutnings fáist er að skráningar í hjarðbók séu uppfærðar reglulega og gefi rétta mynd af hjörðinni.

Smitvarnir

Við flutning á nautgripum milli hjarða er mikilvægt að gæta smitvarna. Ef flytja á mjólkurkýr er sjálfsagt að biðja seljandann um að upplýsa um frumutölu á búinu og að tekið sé tanksýni til að greina júgurbólgusýkla t.d. til að sjá hvort þar greinist sýklar sem eru alvarlegir júgurbólguvaldar eins og t.d. S. aureus, S. agalactiae og hvort þar eru β-lactamase jákvæðir sýklar og kaupa ekki kýr sem eru frumuháar.

Ítarefni