• Email
 • Prenta

Líflambaflutningar

Til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma í sauðfé og stuðla að útrýmingu þeirra hefur landinu verið skipt upp í varnarhólf með svokölluðum varnarlínugirðingum.  Ekki er heimilt að flytja lifandi fé milli varnahólfa, þ.e.a.s. yfir varnarlínur, nema sótt sé um leyfi þess efnis á tilteknum eyðublöðum sem fylla má út rafrænt á vef Matvælastofnunar. 

Áður en sótt er um leyfi til kaupa á lömbum eða kiðum til lífs þarf að sækja um mark og bæjarnúmer sé það ekki til á nafni umsækjanda. Því verður úthlutað á búsnúmer sé það til en annars verður því einnig úthlutað. 
 

Minnispunktar fyrir seljendur

 1. Mikilvægt er að flutningstæki séu vel þrifin og sótthreinsuð í heimahéraði, áður en flutningsferð hefst. Seljandi getur krafið þann sem kemur að sækja lömbin um vottorð dýralæknis um þrif og sótthreinsun á flutningstækinu. Til að forðast smit sem mögulega getur borist með flutningstækjum er mælt með að seljendur fari ekki upp í flutningstækið og bílstjórar, og aðrir sem með bílnum koma, fari ekki inn í fjárhús. Ef það er hins vegar óhjákvæmilegt ættu þeir að vera íklæddir hreinum hlífðarfatnaði og hreinum skóm eða skóhlífum.
 2. Seljandi skal skrá sölu lambanna í Fjárvís. Bændasamtökin skila MAST skýrslu um viðskipti með sauðfé árlega.
 3. Athugið að mikilvægt er að fullorðnu fé af bænum sé lógað í sláturhúsi eða hausum skilað inn til sýnatöku. (Sjá 5. gr. reglugerðar um flutning líflamba milli landsvæða, nr. 550/2008 og 7. gr. reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar). Hafið samband við héraðsdýralækni um fyrirkomulag sýnatöku úr fé sem lógað er heima á þessu ári, ef um slíkt er að ræða. 
 4. Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða, heldur sauðfjárbóndi söluleyfi milli ára án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Tilkynna þarf Matvælastofnun ef óskað er að söluleyfi verði fellt niður og mun stofnunin þá taka nafn búsins af lista yfir bú sem hafa leyfi til að selja líflömb. 

Minnispunktar fyrir kaupendur

 1. Mikilvægt er að flutningstæki séu vel þrifin og sótthreinsuð í heimahéraði áður en flutningsferð hefst. Sá sem sækir lömbin skal sjá til þess að flutningstækin séu þrifin og sótthreinsuð og skal hreinsunin tekin út og vottuð af dýralækni. Framvísa skal staðfestingu, sé þess óskað. (Sjá 7. gr. reglugerðar um flutning líflamba milli landsvæða, nr. 550/2008). Til að forðast smit sem mögulega getur borist með flutningstækjum er mælt með að seljendur fari ekki upp í flutningstækið og bílstjórar, og aðrir sem með bílnum koma, fari ekki inn í fjárhús. Ef það er hins vegar óhjákvæmilegt ættu þeir að íklæðast hreinum hlífðarfatnaði og hreinum skóm eða skóhlífum. 
 2. Kaupendur eru hvattir til þess að fá dýralækni til að meðhöndla lömbin með langverkandi sníkjudýralyfi strax við eða fyrir heimkomu og bólusetja gegn garnaveiki ef kaupandi er á svæði þar sem það er skylda. Minnt er á að láta bólusetja öll ásetningslömb sem fyrst.
 3. Kaupandi skal endurmerkja lömbin og tilkynna Bændasamtökum Íslands um einstaklingsmerki þeirra og bæjarnúmer. Bændasamtökin skila MAST skýrslu um viðskipti með sauðfé árlega.
 4. Kaupandi ber allan kostnað af viðskiptum með líflömb, þ.m.t. flutning, sbr. þó sérákvæði hér að neðan þegar um er að ræða fjárskipti í kjölfar niðurskurðar vegna riðuveiki.

Til viðbótar fyrir þá sem eru að kaupa fé vegna fjárskipta

 1. Samanber 16. gr. reglugerðar nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar greiðir ríkissjóður 90% flutningskostnaðar á líflömbum vegna fjárskipta. Flutningsaðili skal senda sérstakan reikning til Matvælastofnunar, stílaðan á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík, kt. 570269-1869, sem nemur 90 % af flutningskostnaði vegna líflamba viðkomandi kaupanda. Matvælastofnun sendir reikninginn áritaðan til ráðuneytisins, sem annast greiðsluna.
 2. Vegna hættu á að riðusmit viðhaldist eru fjáreigendur beðnir að virða eftirfarandi tilmæli:
  • Fé skal ekki flutt til lífs frá fjárskiptabæjum á aðra bæi.
  • Fé frá öðrum bæjum skal ekki tekið til lífs inn í hjörðina.
  • Ráðlegt er að kaupa ásetningslömb fyrstu 3-5 árin frá líflambasölubæjum, ekki setja á heimafædd lömb.
  • Aðskilja skal eins og unnt er líffé frá fjárskiptabæjum og fé annarra bæja í flutningum og við aðra meðferð fyrstu árin eða eins lengi og unnt er. Girðingum skal vel við haldið. Lóga skal fé sem lendir á flakki eða fer í aðra afrétti en hina eiginlegu.
  • Fylgjast skal vel með heilsufari nýja stofnsins, halda skrá um öll vanhöld og veikindi og hafa samband við héraðsdýralækni ef kindur sýna grunsamleg einkenni.

Ítarefni