• Email
 • Prenta

Varnarhólf

Yfirlit:


Bændur og forráðamenn dýra

Á síðari árum hafa skipulagðar bændaferðir til útlanda færst í vöxt. Í slíkum ferðum er yfirleitt farið í heimsóknir á bóndabæi eða landbúnaðarsýningar þar sem dýr eru sýnd. Ekki er vitað til þess að sjúkdómar hafi borist til landsins í kjölfar þessara ferða og má þar eflaust þakka árvekni ferðalanga og fararstjóra þeirra.

Verjið dýrin og bæinn ykkar. Enginn getur varið hann betur en þið sjálf og enginn ber meiri ábyrgð á því. Hleypið engum sem er að koma erlendis frá inn í fjósið, fjárhúsið, svínahúsið, hesthúsið, alifuglahúsið, kanínuhúsið, minkahúsið o.s.frv. nema þeim sem þangað eiga lögmætt erindi og gætið þess að viðkomandi sýni smitgát. Verið sjálfir góð fyrirmynd.

Lesa má nánar um smitvarnir á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um smitvarnir og ferðamenn.

Varnarhólf

Eins og flestir búfjáreigendur vita er landinu skipt upp í 25 varnarsvæði með svokölluðum varnarlínum sem ýmist eru girðingar eða náttúrulegar hindranir. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Fé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum.

Varnarlínurnar gegna einnig mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Sömuleiðis geta varnarlínurnar haft mikla þýðingu við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma. Til að auðvelda eftirlit eru mismunandi litir hafðir á eyrnamerkjum í sauðfé eftir því hvaða varnarhólfi þau tilheyra. 

Strangar reglur gilda um flutning á lifandi jórturdýrum, tækjum og ýmsum varningi yfir varnarlínur. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma er Matvælastofnun heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra. Í lögunum segir ennfremur að óheimilt sé að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur, nema þegar um er að ræða endurnýjun bústofns vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma og/eða vegna búháttabreytinga. Þar segir einnig að sleppi sauðfé yfir varnarlínur skuli því slátrað. Nautgripi og geitur má aðeins flytja til lífs yfir varnarlínur að fram hafi farið sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra. Nákvæmari ákvæði um flutning yfir varnarlínur er að finna í reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og reglugerð um flutning líflamba.


varnarlínur og litamerking sauðfjár

Kortið sýnir með svörtum línum hvernig varnarlínurnar liggja. Athugið að verið er að uppfæra þessa mynd eftir breytingar á varnarlínum. Brotalínur eru aukavarnarlínur og litirnir tákna svæðaskiptingu litamerkinga á sauðfé. Vegna niðurfellinga á varnarlínum geta fleiri litir verið innan hvers hólfs og sami litur beggja megin við varnarlínur.

Skýringar á gildandi reglum um flutninga á lifandi sauðfé

Í auglýsingu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er landinu skipt upp í varnarsvæði. Vegna ólíkrar sjúkdómastöðu í þessum varnarsvæðum gilda mismunandi reglur um flutninga á lifandi fé frá og innan þessara svæða.

Ef riðuveiki greinist á bæ er varnarsvæðið talið sýkt í 20 ár frá næstu áramótum þess árs sem síðasta tilfelli er staðfest. Ósýkt varnarsvæði eru svæði þar sem riða hefur ekki greinst síðastliðin 20 ár.

Varnarsvæðum er hægt að skipta upp í fjóra flokka:

 1. Líflambasölusvæði – til þessara svæða teljast varnarhólf sem aldrei hefur greinst riða og garnaveiki ekki greinst síðastliðin 10 ár. Smitálag vegna riðuveiki á aðliggjandi sóttvarnarsvæðum skal einnig vera lítið. 
 2. Ósýkt varnarsvæði - til þessara svæða teljast varnarhólf þar sem riða hefur ekki fundist sl. 20 ár.
 3. Sýkt varnarsvæði - til þessara svæða teljast varnarhólf þar sem riða hefur greinst á sl. 20 árum og ekki er gerður greinarmunur á sýktum og ósýktum svæðum innan hólfsins.
 4. Svæðisskipt varnarsvæði - þar sem hólfinu er skipt upp í sýkt og ósýkt svæði og ólíkar reglur gilda um flutning á lifandi fé eftir því hvort um er að ræða fé á sýkta eða ósýkta svæðinu.

Eftirfarandi reglur gilda um flutninga á lifandi fé frá og innan þessara flokka varnarsvæða:

1. Líflambasölusvæði

 • Snæfellsneshólf
 • Vestfjarðahólf eystra
 • Norðausturhólf (N-Þingeyjarsýsluhluta hólfsins)
 • Öræfahólf

Þetta einu svæðin sem flytja má líflömb frá, yfir varnarlínur, með leyfi frá Matvælastofnun. Hvorki er leyfilegt að flytja líffé inn í þessi líflambasöluhólf né á milli þeirra til að verja þau eftir fremsta megni gegn smitsjúkdómum.

2. Ósýkt varnarsvæði

 • Vesturlandshólf
 • Dalahólf
 • Vestfjarðahólf vestra
 • Miðfjarðarhólf
 • Grímseyjarhólf
 • Eyjafjarðarhólf
 • Norðausturhólf (önnur svæði en líflambasöluhlutinn)
 • Héraðshólf
 • Austfjarðahólf
 • Suðausturlandshólf
 • Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólf
 • Rangárvallahólf
 • Grímsnes- og Laugardalshólf
 • Vestmannaeyjahólf
 • Skjálfandahólf

Engar takmarkanir eru settar á flutninga með lifandi fé milli hjarða innan þessara svæða. Hinsvegar þarf að sækja um til MAST ef flytja á fé inn á þessi svæði sbr. reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða, með síðari breytingum.

3. Sýkt varnarsvæði

 • Vatnsneshólf
 • Húna- og Skagahólf
 • Suðurfjarðahólf
 • Hreppa- Skeiða- og Flóahólf
 • Biskupstungnahólf

Allir flutningar á fé milli hjarða innan þessara svæða og frá þeim (yfir varnarlínur) eru bannaðir, sbr. reglugerð nr. 651/2001. Til að kaupa líffé inn á sýkt varnarsvæði þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar, sbr. reglugerð nr. 550/2008. 

4. Varnarsvæði sem eru svæðisskipt vegna sjúkdómastöðu

 • Tröllaskagahólf:
  - Sýkt svæði: Dalvíkurbyggð norðan Hámundarstaða.
  - Ósýkt svæði: Önnur svæði í hólfinu.
 • Landnámshólf:
  - Sýkt svæði: Sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði og Árborg og Grafningur í Grímsnes- og Grafningshreppi.
  - Ósýkt svæði: Önnur svæði í hólfinu.

Sömu reglur gilda og fyrir sýkt og ósýkt svæði, allt eftir staðsetningu.

Ítarefni